Hvernig hefur heilsunudd jákvæð áhrif á andlega heilsu?

Heilsunudd

Allir vita að heilsunudd er frábært við stoðkerfisvandamálum. En heilsunudd bætir andlega heilsu ekki síður en líkamlega, sem er ekkert síður mikilvægt og má ekki vanmeta. Í nuddi nær fólk gjarnan að endurræsa sig og finna um leið djúpa slökun, sem hefur góð áhrif á taugakerfið, sem er lífsnauðsynlegt í okkar hraða samfélagi.

Streita er óhjákvæmilegur hluti lífsins. Það er nánast ómögulegt að fjarlægja alla streitu úr daglegu lífi. Streita er lífeðlisfræðileg og sálræn viðbrögð við aðstæðum sem líkaminn og hugurinn finna fyrir að séu yfirþyrmandi. Jafnvel aðstæður sem taldar eru góðar, eins og að giftast, byrja í nýju starfi eða verða foreldri, geta valdið verulegri streitu. Þegar fólk á í erfiðleikum með að takast á við streituvaldandi aðstæður geta þunglyndis- og kvíðaeinkenni orðið meira áberandi.

Heilsunuddmeðferð er ein af mörgum leiðum til að takast á við streitu og meðhöndla kvíða og þunglyndi. Sumir halda ranglega að nuddmeðferð sé aðeins dekur. Þó að þetta sé rétt fyrir suma, hjálpar það einnig við að stjórna kvíða, þunglyndi og svefnleysi. En hvernig getur það verið satt?

Kostir heilsunudds fyrir andlega heilsu.

Nudd er ekki bara notalegt. Það getur lækkað magn kortisóls í líkamanum og er þannig streitulosandi. Kortisól er hormón sem við köllum „stresshormón“ og er framleitt þegar líkaminn er undir álagi. Nudd lækkar kortisól í líkamanum á sama tíma og það losar serótónín. Serótónín er hormón sem er stundum kallað „hamingjuhormón“. Við losun serótónins þá verðum við hamingjusamari og um leið minnkar depurð. Þegar kortisól lækkar og serótónín eykst, þá eykst hæfni líkamans til að berjast gegn sársauka, kvíða, depurð og svefnleysi.

Heilsunuddarar hlusta á þarfir þínar og áhyggjur. Þeir geta þróað meðferðaráætlun til að minnka streitu og einkenni kvíða og þunglyndis. Nuddmeðferðir geta verið allt frá 30 til 90 mínútur að lengd. Heilsunudd getur hjálpað til við að styðja þig á þinni vegferð í átt að betri líkamlegri og ekki síður andlegri heilsu.

Höfundur er Helena Friðþjófsdóttir, heilsunuddari og nálastungufræðingur L.Ac

Deila
Shopping Cart
Scroll to Top